Smásala í Bretlandi jókst næstum þrisvar sinnum meira í júní en sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir. Aukningin nam 1,1% sem er það mesta síðan í janúar en spá sérfræðinga hljóðaði upp á 0,4% aukningu. Kaup neytenda á sjónvörpum og íþróttatreyjum var ein aðalástæða hækkunarinnar og má rekja það til Evrópumótsins í knattspyrnu sem fór fram í júní.

Í Vegvísi Landsbankans kemur fram að þessar tölur ýta undir getgátur manna um að vextir verði hækkaðir aftur strax í næsta mánuði. Smásala hefur nú ekki lækkað 13 mánuði í röð sem er lengsta tímabil án lækkana síðan 1986. Talsmaður Seðlabanka Englands sagði í gær að lítið þyrfti til að vekja verðbólgudrauginn.

Í kjölfar birtingar talnanna styrktist pundið gagnvart dollar en GBP/USD krossinn hefur hækkað úr 1,8335 frá því seint í gær í 1,8480 nú. Alla vikuna hafði dollarinn þó verið að styrkjast en krossinn stóð í 1,8728 í byrjun vikunnar.