Smásalar líkt og Asda og Argos gætu fengið milljarða punda í bætur eftir að Hæstiréttur Bretlands úrskurðaði að færslugjöld Visa og Mastercard brjóta gegn samkeppnislögum. Financial Times segir frá .

Hæstiréttur höfnuðu einróma þremur aðskildum áfrýjunum frá kreditkortaútgefendunum, sem hafa dregist á langinn síðan 1992, í málum sem varða smásalana Asda, J Sainsbury, Argos og Wm Morrison vegna milligjalda (e. interchange fees), sem er álagning á hverja færslu greiðslukorta.

Bæturnar til smásalanna gætu hlaupið upp á milljarða punda en upphæðin verður ákveðin af dómstólum í frekari réttarhöldum. Fylgst er náið með málinu þar sem úrskurðurinn gæti haft áhrif á önnur mál gegn Mastercard og Visa er varða færslugjöld.

Hæsturéttur kvað um að mál höfðað af Asda, Argos og Morrison gegn Mastercard vegna færslugjalda geti farið beint til dómstóla þar sem ákveðið verður hversu háar skaðabætur verði greiddar.

Frances Murphy, meðeigandi hjá Morgan Lewis og lögmaður Sainsbury, segir að ákvörðun Hæstaréttar Bretlands muni „hafa verulegar afleiðingar, þar á meðal skaðabætur upp á milljarða punda en smásalar fylkjast í raðir til þess að fá bætur vegna ofrukkunar. Sainsbury mun sækjast eftir að endurheimta alla upphæðina sem það hefur tapað vegna ólögmætrar álagningar.“

Mastercard sagði í tilkynningu að ákvörðun Hæstaréttar væri ekki lokaúrskurður málsins og að það verði frekari fyrirtökur til þess að kveða á um lykilatriði. „Við trúum því eindregið að smásalar af öllum stærðum hagnist á því að nota okkar netkerfi,“ segir í tilkynningunni.