Smásala í Bandaríkjunum jókst um 0,1% í júní, sem er minna en búist hafði verið við. Bílasala hefur ekki verið minni í tvö ár, en sala bíla og varahluta í þá minnkaði um 3,3% í júní og var 9,5% minni en í júní 2007.

Meðalspá Reuters hafði gert ráð fyrir 0,4% aukningu smásölu í júní. Smásala jókst um 1% í maí í Bandaríkjunum.

Séu bílar ekki teknir með í dæmið jókst smásala í Bandaríkjunum um 0,8% í júní.

Greiningaraðilar höfðu búist við því að endurgreiðsla skatta til einstaklinga myndi gefa smásöluverslun byr undir báða vængi í mánuðinum. Nú virðist hins vegar sem sú aukning hafi að mestum hluta komið fram í maí.