Gengi hlutabréfa Haga, Skeljungs og N1, hefur lækkað það sem af er morgni. Líklegt er að lækkunin tengist opnunar Costco smásölurisans, sem er í samkeppni við félögin þrjú.

Hlutabréfaverð Haga hefur lækkað um 2,22% í 895 milljón króna viðskiptum þegar þetta er skrifað fyrir hádegi. Skeljungur hefur lækkað um 2,56% í 59 milljón króna viðskiptum og N1 um 2,69% í 169 milljón króna viðskiptum þegar þetta er ritað.

Costco opnaði verslun sína með pompi og prakt síðastliðinn þriðjudag, þann 23. maí. Síðastliðinn föstudag lækkaði gengi bréfa Haga einnig um 2,17% í 381,7 milljón króna viðskiptum og gengi bréfa N1 um 2,19% í 179,1 milljón króna viðskiptum.

Ítarlega er fjallað um viðbrögð þeirra þriggja félaga sem starfa á smásölumarkaði við komu Costco í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins . Hagar og Skeljungur hafa þegar brugðist við komu risans; Hagar keyptu allt hlutafé í Olís og fasteignafélaginu DGV. Einnig hefur Skeljungur tilkynnt um samningaviðræðum um kaup á Basko ehf. sem fer með eignarhald á 10-11, og fleiri verslanir.