Nokkuð rautt var um að litast í Kauphöllinni í dag, en flestar lækkanir voru nokkuð hóflegar. Smásölu- og olíufélögin Hagar og Festi leiddu lækkanir dagsins. Úrvalsvísitalan féll um 0,19%, og af þeim 11 félögum sem féllu í verði í dag lækkaði helmingur um innan við 1%. Velta á aðalmarkaði nam 5,4 milljörðum króna.

Hagar lækkuðu sem fyrr segir mest í viðskiptum dagsins um 3,03% í aðeins 42 milljóna króna veltu. Því næst kom Festi með 2,31% lækkun í 419 milljóna viðskiptum, og Brim lækkaði um 2,11% í rétt tæplega 200 milljónum. Önnur bréf lækkuðu um undir 2%.

Fimm félög hækkuðu þó í dag, Kvika mest af öllum með 4,03% hækkun í 909 milljóna króna viðskiptum, því næst Eik með 2,65% hækkun í 192 milljóna viðskiptum og loks Reitir með slétta 1% hækkun í 298 milljóna króna viðskiptum.

Bréf Arion banka skiptu um hendur fyrir hátt í 1,2 milljarð króna, og fóru bæði undir og yfir opnunargengið í viðskiptum dagsins, en enduðu daginn á óbreyttu verði. Að vanda var Marel ofarlega á veltutopplistanum með 963 milljóna króna viðskipti sem skiluðu félaginu 0,46% lækkun, en Kvika tók þriðja sætið.