Stjórn Woolworths hafnaði á sunnudag yfirtökutilboði í smásöluhluta félagins.

Malcolm Walker, stofnandi Iceland-keðjunnar, fór um helgina fyrir hópi fjárfesta sem vildi kaupa verslanahluta Woolworths.

Talið er að hópurinn hafi stefnt á að breyta verslununum í Iceland- verslanir.

Stjórn Woolworths hafnaði tilboðinu á þeim forsendum að það endurspeglaði ekki verðmæti undirliggjandi reksturs og eigna verslanahlutans.

Einnig spilar sennilega inn í það skilyrði yfirtökutilboðsins að skuldir og lífeyrisskuldbindingar Woolworths fylgdu ekki með í kaupunum, en nánari smáatriði í útfærslu yfirtökutilboðsins liggja ekki fyrir.

Baugur er meðal þeirra sem komu að yfirtökutilboðinu, en félagið á þegar 10% í Woolworths. Sá hluti Woolworths sem fjárfestahópurinn bauð í hefur um nokkurt skeið skilað samstæðunni slakri afkomu.

Sem dæmi má nefna að á síðasta ári var hagnaður af verslunarrekstri Woolworths 3,4 milljónir punda á meðan hagnaður af annarri starfsemi félagsins nam 54,8 milljónum punda.

Matthew McEachran, sem sér um að greina smásölumarkaði fyrir Kaupþing á Bretlandi, segir að verslanahluti Woolworths hafi haft lækkandi áhrif á hlutabréfaverð samstæðunnar um nokkurt skeið.

„Hefði yfirtökutilboðinu verið tekið hefði það verið gott tækifæri til að bæta reksturinn,“ segir hann í samtali við Viðskiptablaðið. McEachran segist allt eins eiga von á að nýtt tilboð berist frá fjárfestahópnum.

Woolworths hækkaði mikið við opnun viðskipta í London í gær. Um hádegi hafði gengi bréfa félagsins hækkað um 15%, en við lokun hafði gengið hækkað um ríflega 11%.