Smásöluvelta dagvara á föstu verðlagi var um 2,3% meiri í nóvember sl. en í sama mánuði árið 2003 samkvæmt nýrri smásöluvísitölu SVÞ-IMG. Áfengissmásalan reyndist 2,9% meiri á sama tímabili og sala lyfjaverslana jókst um 5,0% miðað við nóvember í fyrra. Verðhækkanir skv. Hagstofu Íslands í nóvember sl. miðað við sama mánuð á fyrra ári reyndust 1,3% í dagvörum, 0,8% í áfengi og 3,6% í lyfjasmásölu.

Í ár var einum laugardegi færra í nóvember en í sama mánuði í fyrra og þetta skýrir helst litla hækkun í mánuðinum í matvöru og áfengissölu. Hækkun á meðalgildi síðustu 3.mánaða á föstu verðlagi samanborið við sama tímabil fyrir ári var frá 0,6 til 5,0 prósent eftir verslunargreinum.

Smásöluvísitala SVÞ-IMG er reiknuð af IMG samkvæmt upplýsingum sem berast beint frá fyrirtækjunum og ÁTVR. Miðað er við að a.m.k. 80% af veltu í greininni skili sér með þessum hætti. Venjulega er þetta hlutfall þó nokkuð hærra.

Smásöluvelta ÁTVR í áfengi er leiðrétt með viðkomandi verðvísitölu úr neysluverðs-vísitölu Hagstofunnar og lyf sömuleiðis með viðkomandi verðvísitölu fyrir lyf og lækningavörur.