Smásöluverslun minnkaði óvænt í Evrópu í febrúar og þá helst í Þýskalandi, stærsta efnahagskerfi Evrópu.

Smávöruverslun á evrusvæðinu minnkaði um 0,5% en gert hafði verið ráð fyrir 0,2% aukningu að því er Bloomberg fréttaveitan greinir frá. Sala á matvörum lækkaði um 0,2%.

Þá lækkaði smásala töluvert í Þýskalandi eða um 1,6%.

Eins og greint var frá í vikunni hefur verðbólga á evrusvæðinu aldrei verið hærri en nú. Hækkandi verð á orku, húsnæði og mat gerir það að verkum að smásala minnkar. Þá virðast fréttir af minnkandi atvinnuleysi í Evrópu lítil áhrif hafa á eyðslu einstaklinga.

„Það eru ekki líklegt að einkaneysla nái að bjarga efnahagskerfinu þó svo að hún vegi mjög þungt,“ sagði Howard Archer, yfirhagfræðingur Global Insight í London. „Það lítur út fyrir að einstaklingar séu að halda að sér höndum vegna aukinnar verðbólgu, erfiðleika á fjármálamörkuðum og hækkandi verðlags,“ sagði Archer.