Smass og Stél, smassborgara- og kjúklingastaðir sem reknir eru undir sama þaki að Ægisíðu 123 í Vesturbæ Reykjavíkur, munu öðru hvoru megin við áramót auka umsvif sín með opnun nýs veitingastaðar í miðbæ Reykjavíkur. Verður staðurinn til húsa að Pósthússtræti 2, þar sem Nonnabiti var um árabil til húsa. Smass rekur einnig hamborgarastað á Fitjum í Reykjanesbæ og er á næstunni einnig stefnt á að opna Stél undir sama þaki. Verða veitingastaðir Smass og Stél því samtals orðnir þrír áður en langt um líður.

Guðmundur Óskar Pálsson, framkvæmdastjóri og einn eigenda Smass og Stél, segir framkvæmdir við nýja veitingastaðinn í miðbænum vera á fullu þessa dagana. Drauminn sé að það takist að opna staðinn rétt fyrir jól, en líklegra sé að staðurinn opni strax á nýju ári. Hann segir viðtökurnar sem bæði Smass og Stél hafi fengið meðal Vesturbæinga hafa verið mjög góðar. Fljótlega hafi því eigendurnir farið að horfa í kringum sig eftir hentugu húsnæði sem gæti hýst fleiri slíka veitingastaði.

„Við erum núna með þrjár til fjórar mögulegar staðsetningar til viðbótar á borðinu sem við erum að skoða, en einblínum þó mest í augnablikinu á opnun veitingastaðarins í miðbænum. Við sjáum mikil tækifæri í að opna Smass og Stél í fleiri hverfum höfuðborgarsvæðisins. Ef við rekumst á góða staðsetningu utan höfuðborgarsvæðisins þá munum við einnig skoða hana, því við viljum stækka hratt."

Gott tvíeyki

Guðmundur segir vörumerkin tvö, Smass og Stél, virka mjög vel saman. „Það eru mjög mikil samlegðaráhrif fólgin í því að geta rekið tvo mismunandi staði undir sama hatti. Hægt er að samnýta starfsfólk og borga bara leigu fyrir eitt húsnæði í stað tveggja, svo fáein dæmi séu nefnd," segir Guðmundur. „Við höfum séð það á staðnum okkar á Ægisíðu að fólk kann vel að meta að þessir tveimur mismunandi staðir séu reknir í samfloti. Því fannst okkur tilvalið að halda þessu samfloti áfram í Reykjanesbæ, miðbænum og vonandi víðar."

Guðmundur segir ljóst að opnun nýs staðar kalli eftir fjölgun í starfsmannahópnum. „Við erum búin að auglýsa eftir fólki og nokkur fjöldi umsókna þegar borist. Við munum einnig nýta hluta starfsfólks af Ægisíðunni á nýja staðnum. Í húsnæðinu í miðbænum er síðan stórt iðnaðareldhús í kjallaranum og mun það gera okkur kleift að samnýta eldhússtarfsfólkið í grunn undirbúningsvinnu matvælanna, fyrir nýja staðinn sem og Ægisíðuna."

Á dögunum fagnaði Smass eins árs afmæli staðarins í Vesturbænum en Stél var opnaður um miðbik síðastliðins sumars. Guðmundur segir að mestu leyti sömu rekstraraðila standa að baki Smass og Stél. Jafnframt segir hann hugmyndina um að því að reka kjúklingastað undir sama hatti og Smass hafa komið fljótlega upp eftir opnun hamborgarastaðarins. „Magnús Jökull Guðmundsson, sem á í Stél með okkur, kom fljótlega inn sem yfirkokkur á Smass og hann hafði lengi langað til að opna „Hot chicken" veitingastað. Okkar leist vel á þá hugmynd og ákváðum að kýla á að opna slíkan stað."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .