Á dögunum opnaði nýr hamborgarastaður, Plan B Burger, á Suðurlandsbraut 4 í húsnæðinu sem áður hýsti eitt af útibúum salatstaðarins Fresco. Veitingastaðurinn er hugarfóstur Óskars Kristjánssonar og mun hann reka staðinn ásamt syni sínum, Kristjáni Óskarssyni. Óskar býr yfir talsverðri reynslu þegar það kemur að hamborgaragerð. Hann rak til að mynda hamborgarastaðinn Murphy´s Burger Joint í Árósum í Danmörku, sem að sögn Óskars naut nokkurra vinsælda þar í borg.

„Nýi staðurinn er í svokölluðum „diner" stíl, og erum við m.a. með „smassaða" hamborgara, kjúklingaborgara, heimatilbúna sjeika og gómsæta kleinuhringi á boðstólum, svo fátt eitt sé nefnt," segir Óskar, spurður um hvaða valmöguleikum gestir hamborgarastaðarins hafi úr að velja af matseðli.

Líkt og fyrr segir er Óskar reynslubolti í rekstri hamborgarastaða. Nú síðast stofnaði hann hamborgarastaðinn Smass á Ægisíðu 123 í Vesturbæ Reykjavíkur ásamt Guðmundi Óskari Pálssyni. Staðurinn var opnaður undir lok síðasta árs en líkt og nafn hans gefur til kynna einblínir hann á smassborgaragerð. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst nærst er Smass fyrsti smassborgarastaðurinn sem opnaði hér á landi.

Óskar kveðst hafa ákveðið að fara út úr þeim rekstri og leita á önnur mið þar sem hann gæti fullkomnað sínar hugmyndir um besta smassborgara í bænum. „Hugmyndafræði mín er einföld þegar það kemur að rekstrinum. Einfaldur matseðill, topp hráefni og gott verð," segir hann.

Smass stefnir á að opna fleiri staði

Guðmundur Óskar Pálsson, einn eigenda Smass, segir Smass hafa fengið frábærar móttökur og í raun svo góðar að eigendur staðarins leiti nú að fleiri staðsetningum fyrir hamborgarastaðinn.

„Viðtökurnar hafa verið ótrúlegar. Það er brjálað að gera og við erum á milljón hvert einasta kvöld að smassa borgara. Það er ljóst að við verðum að fara að opna fleiri Smassstaði og við erum á fullu að leita að hentugu húsnæði,“ segir hann.

„Fyrir tæpum tveimur árum flutti ég heim eftir níu ára dvöl í Danmörku, þar sem ég kom að rekstri fjölda hamborgarastaða. Ég hafði kynnst hinni svokölluðu ,,smash" aðferð við steikingu hamborgara á ferðum mínum um Bandaríkin. Ég féll fyrir þessari ómótstæðilegu brúnun og bragðinu sem maður nær fram með þessari aðferð. Ég gæti talað endalaust um þessi smáatriði, en ég er með svona ,,nördahorn" á heimasíðunni okkar þar sem fólk getur lesið sér til um þau,“ bætir hann við.

„Pop up" smassborgarastaður í miðbænum

Á morgun opnar svo annar nýr „pop up" hamborgarastaður, 2Guys, með svipuðu þema, þar sem smassborgarar verða í forgrunni. Líkt og fyrr segir er um „pop up" veitingastað að ræða, sem verður starfræktur næstu þrjá mánuði. Umræddur staður er í miðbæ Reykjavíkur, nánar tiltekið á Klapparstíg 38, við hliðina á Kalda Bar.

Að sögn Róberts Arons Magnússonar, sem á og rekur 2Guys ásamt félögum sínum þeim Silla kokki og Hjalta Vignis, einblínir staðurinn á smassborgara, samlokur „og annað gúmmelaði."

Hann segir að þeir félagar framleiði allt sjálfir, blandi nautahakkið og geri sósur frá grunni. Matseðillinn sé í grunninn mjög einfaldur. „Á matseðlinum er ein tegund af hamborgara, tvær tegundir af samlokum og svo, í takmörkuðu upplagi, pretzel borgarar sem unnir eru í samstarfi við bakarann Gulla Arnar," segir Róbert Aron.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ítarlega er fjallað um áhrif nýjustu vendinga í faraldrinum á efnahagslífið.
  • Sagt er frá nýjum sprotasjóði bræðranna Ara og Davíðs Helgasona.
  • Umfjöllun um landvinninga Íslendings í Asíu sem hefur stofnað nýtt fjártæknifyrirtæki á Íslandi.
  • Þorsteinn B. Friðriksson, einn stofnenda Teatime Games, og Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóri Oz, hyggjast stofna lítinn nýsköpunarklasa.
  • Framkvæmdastjóri Hvals segir aðra hluthafa ekki hafa óskað eftir innlausn á hlutum sínum eftir dóma héraðsdóms.
  • Járnkarlskeppnir og útivera er meðal þess sem drífur nýjan framkvæmdastjóra Bláma áfram.
  • Fjallað um dóm í máli Comrade Film gegn Truenorth.
  • Ólafsson ginið er að hefja sókn á erlenda markaði, en það tók ginið aðeins 10 mánuði að verða þriðja mest selda ginið í Vínbúðinni.
  • Týr er á sínum stað auk hrafnanna Hugins og Munins.