Lítið var um hækkanir á gengi hlutabréfa þeirra félaga sem skráð eru á Aðalmarkað kauphallarinnar á Íslandi í viðskiptum dagsins. Gengi sex félaga hækkaði en í öllum tilfellum var hækkunin innan við 1%. Þá lækkaði gengi níu félaga en gengi hlutabréfa sex félaga stóð í stað. Heildarvelta viðskipta dagsins nam 3,6 milljörðum króna og lækkaði OMXI10 úrvalsvísitalan um 0,25% og stendur í kjölfarið í 3.402,52 stigum.

Gengi hlutabréfa Sjóvár hækkaði mest í viðskiptum dagsins, um 0,71% í 17 milljóna króna veltu. Greint var frá því fyrir skömmu að hagnaður tryggingafélagsins hafi numið 5,2 milljörðum króna á fyrri helming árs og því ekki ólíklegt að frekari hækkun muni eiga sér stað í viðskiptum morgundagsins. Næst mest hækkaði gengi Origo, um 0,63% í 105 milljóna króna viðskiptum.

Gengi hlutabréfa Icelandair lækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 2,36% í 401 milljóna króna veltu. Næst mest lækkaði gengi bréfa Kviku, um 1,11% í 315 milljóna króna viðskiptum.