Japanski hlutabréfamarkaðurinn tók stutt skref aftur upp á við í dag eftir hrun sem varð á markaðnum í gær. Þegar markaðnum lokaði í morgun að íslenskum tíma hafði Nikkei hlutabréfavísitalan hækkað um 0,89%, en í gær féll vísitalan um ein 7,8% sem er mesta lækkun á einum degi frá því að flóðbylgjan skall á landinu í mars 2011.

Samkvæmt frétt BBC eru enn áhyggjur uppi um efnahagsástandið í Kína, einkum framleiðslugeiranum þar í landi. Þá hafa fjárfestar áhyggjur af því að bandaríski seðlabankinn ætli að hætta að styðja við fjármálamarkaðinn þar í landi.

Þrátt fyrir lækkunina í gær er Nikkei vísitalan samt 60% hærri en hún var fyrir hálfu ári.