Smellinn hf., fyrirtæki í hönnun og framleiðslu forsteyptra húseininga, hefur verið selt.  Kaupandi er félag í eigu Víglundar Þorsteinssonar og fjölskyldu. VBS fjárfestingarbanki hf. annaðist ráðgjöf við söluna.  Kaupverð er ekki gefið upp.

Fyrirtækið á rætur að rekja til ársins 1931, er Haraldur Kristmannsson vörubílstjóri hóf útgerð á eigin vörubifreið á Akranesi.  Árið 1963 stofnuðu synir hans, þeir Þorgeir og Helgi, ásamt foreldrum sínum, fyrirtækið Vinnuvélar sf.  Árið 2000 bættist við ný deild hjá fyrirtækinu sem framleiddi forsteypta húshluta undir nafninu Smellinn.  Nýja deildin óx hratt og árið 2004 var ákveðið að fyrirtækið skyldi einbeita sér að framleiðslu forsteyptra húseininga og aðrar deildir þess voru seldar.  Í kjölfar þess var nafni fyrirtækisins breytt í Smellinn hf.

Árið 2005 var eignarhaldi þessa rótgróna fjölskyldufyrirtækis breytt og hefur það verið í dreifðri eign þar til nú.  Höfuðstöðvar félagsins eru á Akranesi en útibú er starfrækt í Reykjavík. Hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 80 manns.

Auk þess að framleiða einingar fyrir íbúðarhús, hafa forsteyptar einingar Smellinn verið notaðar til að byggja bensínstöðvar, hótel, skóla, bókasöfn og undirstöður undir háspennulínur svo eitthvað sé nefnt.

Kaupandi er eignarhaldsfélag Víglundar Þorsteinssonar og fjölskyldu sem er  jafnframt móðurfélag BM Vallá hf. sem hefur um langt árabil verið í fararbroddi íslenskra iðnfyrirtækja og gegnt forystuhlutverki í framleiðslu fyrir íslenskan byggingavörumarkað.  Þar er saman komin áratuga þekking og reynsla í framleiðslu og lausnum fyrir íslenska byggingaraðila.

Meðal framleiðslu- og söluvara félagins eru steinsteypa, húseiningar, stál- og álklæðningar, naglar, límtré, yleiningar, stálgrindarhús, hellur og steinar, múrvörur, fráveiturör o.fl. BM Vallá er með starfsstöðvar á 11 stöðum á landinu og hjá félaginu starfa nú um 380 manns.