Smellinn hf. á Akranesi, sem var dótturfélag BM Vallár, var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 3. september. Var Lúðvík Örn Steinarsson hrl. skipaður skiptastjóri í búinu og hefur skiptafundur verið ákveðinn 2. desember nk. Þá hefur verið auglýst eftir innköllunum kröfuhafa í Lögbirtingarblaðinu sem þurfa að hafa borist innan tveggja mánaða eða fyrir 16. nóvember 2010.

Móðurfélagið BM Vallá átti einnig dótturfélagið Límtré Vírnet ehf. sem búið var að sameina móðurfélaginu samkvæmt samrunaáætlun. Lúðvík Örn segir að það hafi ekki verið búið að framkvæma slíkan samruna gagnvart Smellinn hf. þegar BM Vallá fór í þrot. „Þá var þetta eina leiðin í líknarmeðferðinni.” Hann segir ekki hægt að svo stöddu að gefa upp skuldastöðu á Smellinn. Þar eigi eftir að fara yfir krosstengsl við BM Vallá og við fasteignafélagið Ártún sem var í eigu BM Vallár.

Smellinn varð til árið 2000 sem deild í fyrirtækinu Þorgeir og Helgi hf. á Akranesi. Árið 2004 voru gerðar skipulagsbreytingar á móðurfélaginu og stefnan tekin á framleiðslu húseininga. Var nafni fyrirtækisins þá breytt í Smellinn hf. og var starfsmannafjöldinn fljótlega kominn í 80 manns. Eignarhaldsfélag Víglundar Þorsteinssonar, sem einnig var móðurfélag BM Vallá, gekk síðan frá kaupum á fyrirtækinu Smellinn hf. á Akranesi haustið 2007. BM Vallá var síðan úrskurðað gjaldþrota með 10 milljarða króna skuldir á bakinu í maí 2010.