*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Fjölmiðlapistlar 3. mars 2016 15:45

Smelludólgar RÚV

Andrés Magnússon veltir fyrir sér hvort aukning sé að verða á smelludólgafréttum Ríkisútvarpsins.

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Enginn vafi er á því að fjölmiðlun hefur breyst verulega með tilkomu netsins. Hugtök á borð við smelludólga eru öllum kunn, aukin áhersla hefðbundinna fjölmiðla á slebbafréttir er ljóslega svar við samkeppni netmiðla og jafnvel hefur mátt sjá hraðsoðinn stíl úr netmiðlum á hinum hefðbundnu miðlum, aðallega í afþreyingarkenndu efni, en svo sem í eiginlegum fréttum líka. Að mörgu leyti hafa hinir hefðbundnu miðlar þó reynt að verjast þessu, einnig á eigin vefmiðlum, öðrum þræði sjálfsagt til þess að verja trúverðugleika móðurskipanna.

Þeir geta þó illa staðist smellina sem fylgja bullinu. Á vef Morgunblaðsins má þannig feta hæga leið til heljar með því að fara af fréttaflipanum yfir í Fólkið, þar sem aðallega má finna slebbafréttir, og þaðan yfir í Smartlandið, sem er eitthvað enn annað. Þar með er þó ekki sagt að fréttir af frægðarfólki og skemmtanaiðnaði megi ekki rata á fréttasíð­ ur. Fregnir af Óskarsverðlaunum, helstu listamönnum o.s.frv. geta vel átt þar heima. Að því tilskyldu að um raunverulegar fréttir sé að ræða, ekki skrum eða smjatt.

                                                      * * *

Miðlarnir eiga þó misauðvelt með slíka aðgreiningu. Hún er Morgunblaðinu og DV tiltölulega létt af því að þorri lesendanna kemur á vefi þeirra um forsíðuna. Það getur hins vegar verið flóknara fyrir þá vefmiðla sem reiða sig meira á félagsmiðla til þess að fá lesendur (hvort sem það er nú þannig af ráðnum hug eða óvart). Forsíða Vísis er þannig svo þung og ógnarlöng, að fyrir mjög stóran hluta lesendanna er Facebook hin eiginlega forsíða Vísis.

Miðillinn er því mjög háður útdeilingu lesenda á athyglisverðu efni, en svo getur hann auðvitað keypt dreifingu hans af Facebook. Sú aðferð er orðin stór þáttur í útbreiðslu netmiðla um allan heim. Ríkisútvarpið á ekki við alveg sama forsíðuvanda að etja og Vísir, en annan, því viðmót hennar hentar fréttaþyrstum ekkert sérstaklega vel. Hvort það kemur mjög að sök þarf ekki að vera, það er augljóst að vefur Ríkisútvarpsins fær mikla kynningu og umferð um Facebook.

                                                      * * *

Til þessa hefur líkast til lítið reynt á það hjá Ríkisútvarpinu hvort nægileg aðgreining sé á milli eiginlegs fréttaefnis og smelludólgafréttanna, ruv.is hefur einfaldlega lítið verið í dreifingu á slíku efni. Hugsanlega er þó að verða breyting þar á. Varla hefur það farið fram hjá lesendum hið dæmigerða íslenska upphlaup, sem varð vegna sviðsframkomu rappsveitarinnar Reykjavíkurdætra í skemmtiþætti Gísla Marteins Baldurssonar á föstudagskvöld.

Sviðsframkoman var nefnilega ekki einskorðuð við sviðið, heldur snerist málið fremur um framkomu gagnvart öðrum gestum í þættinum. Þar á meðal var leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir, en hún kærði sig ekki um að vera skotspónn Reykjavíkurdætra í rappatriði þeirra og gekk á dyr. Efni málsins hefur verið rætt í þaula á félagsmiðlum, svo það er óþarfi að brjóta það allt til mergjar. Fjölmiðlarýnir staldraði hins vegar við það að á Facebook hóf Ríkisútvarpið að deila sérstakri klippu úr þættinum, sem sýndi þegar leikkonunni var nóg boðið, ofboðið jafnvel, og yfirgaf samkvæmið. Það er eitthvað einkennilegt við það.

Nú má auðvitað skeggræða það vel og lengi hvað ná­ kvæmlega átti sér stað þarna, hvort framkoma Reykjavíkurdætra var boðleg, hvort rappið hafi verið gott, hvort listamenn megi ekki hneyksla, hvort Ágústa Eva hafi verið móðgunargjörn, hvort Gísli Marteinn hafi átt að henda rappkonunum út eða hvað. Út i hið óendanlega. Um hitt verður vart deilt að Ágústu Evu var misboðið og hún þarf ekki frekar en annað fólk að láta hvað sem er yfir sig ganga, hvað sem fólki kann svo að finnast um það. Og hún skuldar engum skýringar um það. Hins vegar má vel halda því fram að Ríkisútvarpið skuldi henni einhverjar skýringar.

Og þess vegna er það frekar skrýtið þegar Ríkisútvarpið fer að dreifa einhverju smjatti um atvikið, sem það bar öðrum þræði ábyrgð á. Auðvitað var það fréttnæmt og auðvitað má segja að Ríkis­ útvarpið hafi verið að auðvelda fólki að sjá það bitastæðasta í þættinum, augnablikin þegar leikkonan stikar út. Það er öllu frekar það hversu óvanalegt það er, að Ríkisútvarpið leggist í þá gerð netfréttamennsku, sem gerir það sérstakt og vekur spurningar um hvort það ætli að feta lengra á þeirri braut.

                                                      * * *

Það er því gaman að segja frá því að í sama mund var ráðherra á Bretlandi að gera BBC orð um að nú væri nóg komið af léttfréttum og slebbaslúðri á vef ríkisútvarpsis þar í landi.