Rammi hf. í Fjallabyggð hefur samið um smíði á nýjum frystitogara hjá skipasmíðastöð í Tyrklandi fyrir um 5,5 milljarða króna, en greint er frá þessu í Morgunblaðinu . Ráðgert er að togarinn verði afhentur í desembermánuði 2016, og er honum ætlað að leysa af hólmi frystitogarana Mánaberg og Sigurbjörgu.

Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma, segir í samtali við Morgunblaðið að tími hafi verið kominn til þess að endurnýja skipakost fyrirtækisins. Kveðst hann sannfærður um að fyrirtækið sé á réttri leið með því að endurnýja skipakostinn, og nefnir því til stuðnings samsetningu aflaheimilda fyrirtækisins.

Nýja skipið verður 80 metra langt og 15,4 metrar á breidd. Frystigetan verður 90 tonn af afurðum á sólarhring og verða 34 í áhöfn skipsins. Þá verður sjálfvirkni á vinnsluþilfari meiri en nú þekkist á flakafrystitogurum.