Fyrirtækið Iðnlausn ehf. þróar nú hugbúnaðarlausnir fyrir iðnfyrirtæki og veitir þeim þjónustu frá A-Ö. „Ég á þrjá ættliði að rekja aftur í byggingariðnaðinum. Ég er að skapa lausnir fyrir iðnfyrirtæki og er með fjórar lausnir í dag; rekstrarlausn, markaðs- og merkingalausn, tæknilausn og svo er það sjálf Iðnlausn,“ segir Grétar Már Margrétarson, stofnandi félagsins.

„Þetta gengur aðallega út á að geta veitt iðnfyrirtækjum í byggingariðnaði alla þá þjónustu sem þau þurfa undir einu og sama þakinu. Bæði til þess að stytta ferla og eins til þess að veita persónulega þjónustu þannig að iðnaðarmaðurinn geti verið með sinn mann sem hjálpar honum með allt sem viðkemur rekstri. Þannig getur hann varið meiri tíma í vinnu sem skapar verðmæti fyrir hann,“ segir Grétar.

„Fjórða lausnin, sjálf Iðnlausn, er svo aðallausnin,“ segir Grétar en utan um hana hverfast framtíðaráform félagsins. „Þetta er miðlægur hugbúnaður fyrir byggingariðnað þar sem ég sé fyrir mér að til framtíðar litið verði allt sem viðkemur byggingariðnaði undir einum hugbúnaði sem starfsmenn, viðskiptavinir, rekstraraðilar og á seinni stigum aðrir aðilar byggingariðnaðar geti starfað saman í. Ég hef stundum lýst þessu, þegar ég þarf að lýsa því í mjög stuttu máli, sem nokkurs konar Facebook byggingariðnað- arins. Hver og einn er með sinn aðgang, þarna inni verða öll skjöl og upplýsingar og það er hægt að hafa samskipti. Sömuleiðis er hægt að sinna helstu rekstrarþáttum eins og tilboðsgerð, reikningagerð, verksamningum, launakeyrslum, tímastimplun og verkefnahaldi. Svo mun þetta vaxa hægt og rólega eftir því sem á líður,“ segir Grétar en hann bætir við að miklum tíma fagmanna sé varið í boðskipti sem séu að miklu leyti óþörf miðað við nútímatækni.

„Það er að fara rosalegur tími í bæði það að menn eru að senda upplýsingar á milli og leita að upplýsingum í staðinn fyrir að þetta væri allt saman í miðlægu kerfi en svo er líka bara verið að eyða að mínu mati ofboðslega miklum tíma í hefðbundna rekstrarferla. Smávægilegt atriði eins og til dæmis að gefa út reikning. Margir senda þá á bókara, bókarinn þarf að setjast niður og kynna sér verkið, gefa út reikning og stofna heimabankakröfu. Sjálfvirknin í tækninni í dag á að geta boðið upp á það að leysa þetta með því að smella á einn takka.“

Í lokaverkefni sínu við HR vann Grétar að því að taka saman þær lausnir sem eru nú þegar á markaðnum og kannaði hug iðnaðarmanna gagnvart þeim. „Þegar ég spurði menn út í ferlana og kerfin fékk ég alltaf sambærileg svör. Ég er enginn viðskipta- eða tölvunarfræðingur og þessi kerfi eru of flókin fyrir mig sögðu þeir. En á sama tíma sögðust þeir vera á Facebook, Instagram og Snapchat. Vandamálið hefur bara verið að kerfin hafa hingað til ekki verið hönnuð fyir þennan markhóp,“ segir Grétar.

Spurður hvernig hafi gengið að sannfæra iðnaðarmenn um að innleiða lausnir hans og treysta kerfinu segir hann mikilvægt að fara rétt að fólki. „Ég segi stundum í gríni að ég sé alinn upp í farþegasætinu á vinnubílnum og í vinnuskúrnum. Ég hef mikinn áhuga á byggingariðnaði, tækni og viðskiptum. Margir viðmælenda minna hafa verið sammála mér um að það sé vöntun á góðum lausnum sem henta þeim.“