Hjónin Kristinn Björgvinsson og Brynja Kristmannsdóttir hafa stofnað félagið Smíðastrumpur ehf. og er tilgangur félagsins einkum að halda utan um rekstur sportbars í Vogum. Barinn heitir Strumpurinn líkt og bar sem þau ráku fyrir nokkrum árum í sama húsnæði.

„Nafnið er einfaldlega til komið vegna þess hve húsið er lítið,“ segir Kristinn. Aðspurður skellir hann upp úr og segist líka vera mikill aðdáandi teiknimyndanna um strumpaþorpið. „Félagið heitir svo Smíðastrumpur vegna þess að ég er sjálfur smiður. Svo einfalt er það.“

Þau hjónin ráku Strumpinn í Vogum fyrir nokkrum árum, en hættu því þegar Kristinn fór að einbeita sér að smíðavinnunni. „Af heilsufarsástæðum get ég núna ekki lengur unnið að sama marki og áður í smíðum og fyrir rælni rakst ég inn á staðinn, sem þá var yfirgefinn. Síðast var þar tölvufyrirtæki sem ekki er lengur starfandi. Ég bar þá hugmynd undir konuna að við myndum opna Strumpinn aftur og mér til furðu samþykkti hún það. Ég er búinn að hafa það mjög gaman að setja barinn upp að nýju og nú bíðum við bara eftir nauðsynlegum leyfum. Ef allt fer að óskum gerum við ráð fyrir því að staðurinn opni á næstu tveimur til þremur vikum.“