*

föstudagur, 23. ágúst 2019
Innlent 1. maí 2016 16:05

Smíði nýs Herjólfs boðin út

Varaformaður fjárlaganefndar segist gera ráð fyrir því að farið verði í útboð núna í maí.

Trausti Hafliðason
Haraldur Guðjónsson

Nú hillir í að smíði nýs Herjólfs verði boðin út. Í samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2018 kemur fram að hönnun nýrrar Vestmannaeyjaferju sé lokið og undirbúningur útboðs á lokastigi.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, hefur fundað tvisvar með fjárlaganefnd vegna málsins og síðast fyrir rúmri viku síðan. Hann segir afar brýnt að smíði nýs Herjólfs verði boðin út núna í maí.

„Allri undirbúningsvinnu er lokið," segir Elliði. „Búið er að fara yfir alla verkfræðina í þessu og tala við alla sem skoðun geta haft á því sem flotið getur. Það næsta sem gerist í samgöngumálum Vestmannaeyja er að það verður smíðuð ný ferja. Vandamálið er að við erum að renna út á tíma ef við ætlum að hefja siglingar á nýrri ferju 2018. Ferjan þarf að koma að vori til svo menn geti kynnst siglingarhæfni hennar við betri aðstæður en veturnir bjóða upp á. Ef útboðið tefst þá er ljóst að ný ferja verður ekki tekin í notkun fyrr en vorið 2019. Ef þetta tefst þá kostar hvert ár um 300 til 500 milljónir í beinum kostnaði fyrir ríkið í viðbót við allan afleiddan kostnað."

Eins og staðan er í dag þá siglir Herjólfur hálft árið til Þorlákshafnar en Elliði segir að með nýrri ferju ætti að vera hægt að sigla til Landeyjahafnar um 300 daga á ári, frátafir yrðu á bilinu 15 til 20%.

Í fjárlögum þessa árs er ekki gert ráð fyrir fjármunum í nýjan Herjólf og því þarf að leggja fram frumvarp til laga til þess að fá heimild fyrir útboðinu. Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, segist gera ráð fyrir því að farið verði í útboðið núna í maí. Það væri lang skynsamlegast.

„Það er ekki bara að ríkið spari peninga með því að gera þetta núna heldur hefur öryggisþátturinn verið algjörlega vanmetinn. Núverandi Herjólfur er orðinn gamall og því nauðsynlegt að fá nýtt skip eins fljótt og mögulegt er."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.