Smit kom upp hjá starfsmanni í hlutastarfi hjá Krónunni í Austurveri. Allir starfsmenn verslunarinnar sem voru í samskiptum við starfsmanninn hafa verið sendir í sóttkví í samráði við sóttvarnarlækni og rakningateymi almannavarna. Smitið er rakið til þeirra smita sem hafa verið í umræðunni í samfélaginu síðastliðna daga, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Búið er að sótthreinsa verslunina en starfsmenn úr öðrum verslunum Krónunnar koma til með að leysa þá af sem fóru í sóttkví.

„Við leggjum áherslu á að fylgja öllum ráðleggingum rakningateymis og gætum fyllstu varúðar. Búið er að sótthreinsa verslunina hátt og lágt til að tryggja öryggi starfsmanna og viðskiptavina okkar. Við viljum þakka rakningarteyminu og starfsfólki okkar fyrir snör viðbrögð og gott samstarf, sem og viðskiptavinum fyrir samvinnu á þessum flóknu tímum. Krónan heldur áfram að leggja mikla áherslu á sóttvarnir í verslunum sínum og minnir viðskiptavini á grímuskyldu og að nýta sér handsprittið sem er að finna víða í öllum verslunum okkar.“ segir Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar

Yfir 20 smit greindust hérlendis í gær samkvæmt því sem Runólfur Pálsson, yf­ir­lækn­ir Covid-deild­ar Land­spít­al­ans, sagði í viðtali á Rás 2 í morgun. Sagði hann að meirihlutinn hafi verið í sóttkví en gat þá ekki gefið nákvæmari upplýsingar að svo stöddu. Mörg smitanna síðustu daga tengjast leikskólanum Jörfa við Hæðargarð í Reykjavík.