Pósthúsið í Síðumúla verður lokað í dag vegna Covid-19 smits sem kom upp hjá starfsmanni. Aðrir starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví og verða prófaðir í dag. Þá verður Pósthúsið sótthreinsað í dag og gert er ráð fyrir að það opni aftur í fyrramálið.

„Því miður erum við að lenda í þessu á okkar umfangsmesta pósthúsi. Það er viðbúið að þetta geti gerst á þessum tímum og við erum með viðbragðsáætlun sem tekur á þessu hjá okkur. Við verðum að setja öryggið framar öllu og því verður allt sótthreinsað í húsinu í dag til að koma í veg fyrir fleiri smit,“ segir Hörður Jónsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Íslandspósts.

„Hvað varðar smitvarnir þá eiga allir starfsmenn pósthúsa að vera með grímur og við leggjum mikla áherslu á að allir fylgi persónulegum smitvörnum. Spritt og hanskar eru í afgreiðslum fyrir viðskiptavini sem og starfsmenn og þá er lögð áhersla á að afgreiðslur séu snertilausar. Viðskiptavinir sem eru að póstleggja geta lagt sitt af mörkum með því að skrá sendingar áður en komið er á pósthús en þá er fyglibréfið sýnt í símanum við afgreiðslu sem er svo prentað út af starfsmanni og sett á viðkomandi sendingu.“

Í tilkynningu frá Íslandspósti segir að á þessum tímum sé mikilvægt að benda á þær afhendingarleiðir sem Pósturinn bjóði upp á sem lágmarka smithættu. Póstbox eru sögð mjög örugg leið til að nálgast sendingar á höfuðborgarsvæðinu. Móttaka og samskipti eru rafræn en viðskiptavinir fái SMS þegar sending er tilbúin til afhendingar.

Hægt sé að skrá sig í þjónustuna á minn.postur.is og þá eru einnig margar innlendar netverslanir sem bjóða upp á möguleikann að senda í Póstbox. Pósturinn er einnig að bæta við Póstboxum víðsvegar á landsbyggðinni sem verða tekin í notkun á næstu vikum. Þá er heimkeyrsla í boði víðsvegar um landið en hún er einnig mjög góð leið til að lágmarka smithættu.

Jafnframt komi þá aðeins einn starfsmaður með sendingu enda sé lögð mikil áherslu á persónulegar smitvarnir bílstjóra og að fyllsta öryggis sé gætt við afhendingu.