Fulltrúar erlendra olíufyrirtækja sækja þessa dagana alþjóðlega ráðstefnu Orkustofnunar um olíuleit á Íslandi.

Kristinn Einarsson, yfirverkefnastjóri olíuleitarmála hjá Orkustofnun, segir vísindamenn bera saman bækur sínar á ráðstefnunni, auk þess sem jarðfræðilegar aðstæður á austurhluta Grænlands og í Noregi eru notaðar til að áætla aðstæður á Jan Mayen-hrygg, eða á svokölluðu Drekasvæði eins og það er gjarna nefnt í daglegu tali.

„Menn eru ennþá að þreifa sig áfram í þessum málum. Helstu hindranir olíuleitar á þessu svæði eru tæknilegs eðlis, m.a. vegna þess að þarna er mikið dýpi. Þar að auki er það langt frá landi,“ segir Kristinn.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagði í ávarpi sínu við setningu ráðstefnunnar að ávinningur Íslands af olíuborun yrði ótvíræður ef vel tækist til.

„Fjármálaráðherra verður mjög ánægður,“ sagði hann.

Mikil atvinnusköpun gæti átt sér stað á norðausturhorni Íslands við framkvæmdirnar.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .