Til að bregðast við fækkun á blóðgjöfum hafa Svíar þróað nýja tækni sem sendir blóðgjöfum sms skilaboð til að láta þá vita þegar blóð þeirra hefur verið nýtt.

Blóðgjöfum er að fækka um heim allan og Svíar hafa verið að reyna að finna leið til að gera fólki grein fyrir mikilvægi þess að gefa blóð. Blóðgjafar fá fyrst þakkarskilaboð fyrir að gefa blóð og svo annað þegar blóðið þeirra hefur verið notað til að bjarga mannslífi.

Talsmaður frá blóðbanka í Stokkhólmi segir að smáskilaboðin sendi jákvæð skilaboð um að fólk hafi hjálpað samborgurum sínum og að þetta hvetji fólk til að gefa blóð aftur. Auk þess hefur nýja framtakið vakið athygli á samskiptamiðlum og fólk er farið að tala um blóðgjöf meðal vina sinna.

Það er góð tilfinning fyrir gjafa að vita að þeir hafi gert gagn og jafnvel bjargað mannslífi. Sms framtakið hófst í Stokkhólmi fyrir þremur árum síðan en er að breiðast út um Svíþjóð eftir jákvæðar móttökur.

Í vestrænum löndum hefur blóðgjöfum fækkað verulega undanfarin ár, í Bretlandi hefur blóðgjöfum til dæmis fækkað um 40% á síðastliðnum tíu árum.