*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 2. desember 2020 09:02

Snakk Bifrastar hlaut hönnunarverðlaun

Bifröst Foods fékk gullverðlaun á London Design Awards fyrir umbúðir "fish & chips" snakks síns.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Bifröst Foods hreppti í vikunni gullverðlaun á verðlaunahátíðinni London Design Awards fyrir umbúðahönnun á “fish & chips” heilsu-snakki sínu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Á vefsíðu viðburðarins kemur fram að verðlaunin eru veitt fyrir hugmyndaríka og vel útfærða hönnun umbúða, texta, myndmáls, lita og fleiri þátta sem stuðla að jákvæðri tengingu milli vörunnar og væntra viðskiptavina fyrirtækisins.

Haft er eftir Rúnari Ómarssyni forsvarsmanni fyrirtækisins að verðlaunin séu góð viðurkenning á því starfi sem fram hafi farið í fyrirtækinu, auk þess sem þau veki áhuga endursöluaðila og neytenda á fyrirtækinu og vörunni, sem er þegar komin í sölu hér á landi.

“Verðlaunin eru viðurkenning á hugviti okkar, markaðsrannsóknum, vöruþróun sem staðið hefur í tvö ár og útfærslu umbúðanna sem við unnum í samstarfi við Birgi Ómarsson hjá Kaktus auglýsingastofu. Þau auka við áhuga innlendra sem erlendra dreifingar og smásöluaðila á vörum okkar sem er auðvitað mikilvægt nú á fyrstu skrefum í sölu á vörunni. Mögulega auka verðlaunin líkurnar á að fyrirtækið fái einhvern stuðning úr stoðkerfi nýsköpunar á Íslandi, en framundan er stórt verkefni sem snýst um að hagnýta þann áhuga sem við finnum fyrir vörunni víðsvegar um heiminn," segir Rúnar.

Stikkorð: Bifröst Foods