Í nýrri bloggfærslu smáforritsins stóra Snapchat er tekið skýrt og rækilega fram að umfjöllun fjölmiðla um meintar breytingar á þjónustuskilmálum sé á villigötum.

Snapchat er vinsæll samskiptamiðill sem byggir á því að ljósmyndir og skilaboð sem notendur senda sín á milli eyðist innan tíu sekúndna frá því að þau birtast viðtakandanum.

Fjölmiðlar hafa fullyrt að með breytingum skilmálanna sem gerðar voru fyrir stuttu hafi Snapchat gefið sér leyfi til að vista myndir notenda sem sendar eru gegnum kerfið og að fyrirtækið áskilji sér rétt til þess að nota þær að vild.

Í tilkynningu Snapchat segir að þetta sé með öllu ósatt, og að enn komi fyrirtækið til með að eyða hverri einustu mynd af gagnagrunnum sínum eftir að hún hefur verið skoðuð. Þar sé engin breyting á málum. Snapchat mun því ekki geta selt fyrirtækjum myndirnar þínar til nota í auglýsingum.

Hins vegar hafi lengi staðið til að byrja að selja svokallaðar endurspilanir, eða 'Replays', og til þess sé Snapchat gefið notkunarleyfi á skilaboðum. Auk þess er notkunarleyfið nauðsynlegt til að halda uppi 'Live Stories' þjónustu miðilsins, sem tekur saman innsend skilaboð frá sérstökum stöðum og safnar þeim saman í langa frásögn.