*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Erlent 11. ágúst 2017 09:01

Snapchat hrynur í verði

Félagið tapaði 43 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi en notendum fjölgar ekki jafnhratt og væntingar voru um.

Ritstjórn
epa

Gengi bréfa Snapchat lækkaði um 14% á mörkuðum í gær eftir að hafa tapað meira en 400 milljónum Bandaríkjadala á síðasta ársfjórðungi, auk þess að vera með færri notendur en vænst var. Jafngildir tapið tæpum 43 milljörðum króna.

Hlutabréfaverð í samfélagsmiðlinum hefur haldið áfram að lækka alveg síðan fyrirtækið fór á markað í vor, en bréfin voru seld á um 17 dali í mars, fyrst eftir útboðið. Þegar þetta er skrifað eru þau verðlögð á 13,77 dali en á eftirmarkaði eru þau komin niður í 11,67 dali.

Facebook farið í beina samkeppni

Samkvæmt ársfjórðungsskýrslunni voru 173 milljón daglegir notendur sem er 4% aukning frá fyrri ársfjórðungi, en samkeppnin við Facebook sem nú er farið að bjóða upp á samsk konar möguleika er hörð. Forstjóri fyrirtækisins Evan Spiegel og samstofnandi hans í félaginu, Robert Murphy lofuðu því að þeir myndu ekki selja neitt af eigin bréfum í félaginu á árinu til að sýna hve mikla trú þeir hafa á framtíðarmöguleikum félagsins.

Tekjur félagsins á ársfjórðungnum voru 181,7 milljón dalir sem er tvöföldun frá sama tíma fyrir ári. En útgjöld félagsins uxu jafnvel hraðar, og náðu meira en 630,6 milljónum dala á ársfjórðungnum. Inn í því eru bæði rekstrargjöld og greiðslur í hlutabréfum. Forstjórinn sagðist meta það svo að um fjórðungur íbúa Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands sem eigi snjallsíma noti Snapchat daglega, og dagleg notkun sé um 30 mínútur.