Snapchat hefur tilkynnt að það muni fljótlega senda frá sér nýja viðbót við snjallsímaforrit sitt sem gerir notendum kleift að senda peninga á milli sín. Verkefnið er unnið í samstarfi við fyrirtækið Square og mun forritið bera nafnið Snapcash. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Snapchat .

Forritið mun virka þannig að notendur geta sent peninga á milli sín með því að skrifa tiltekna fjárhæð í skilaboð til móttakandans og ýta á „senda“. Áður þarf notandinn að skrá kortanúmer sitt hjá Square sem mun sjá um að greiðslan komist til skila. Flóknara er það ekki.

Snapchat nýtur gífurlegra vinsælda um heim allan og hefur appið meira en 100 milljónir notenda. Með appinu geta notendur skipst á myndum, myndskeiðum sem eyðast sjálfkrafa eftir að á þau hefur verið horft. Nú munu þeir einnig geta sent peninga á milli, sem vonandi eyðast þó ekki eftir að tekið hefur verið við þeim, nema þá fyrir tilstilli viðtakandans.