*

mánudagur, 6. desember 2021
Erlent 24. maí 2016 18:44

Snapchat metið á 20 milljarða Bandaríkjadala

Eitt allra vinsælasta samskiptaforritið meðal ungs fólks stefnir á aukna hlutafjárútgáfu.

Ritstjórn

Snapchat virðist vera að leita eftir að minnsta kosti 200 milljónum Bandaríkjadala í aukinni fjármögnun. Væntanleg hlutafjárútgáfa gæti aukið virði félagsins umfram 20 milljarða Bandaríkjadali af því gefnu að hver hlutur seldist á sama verði og í hlutafjárútgáfu félagsins í mars síðastliðnum og að öll bréfin myndu seljast.

Væntar tekjur jafnvel meiri en hjá Facebook

Sumir sérfræðingar telja það þó ólíklegt að takast að fullu, en félagið er nú metið á 16 milljarða Bandaríkjadali eftir síðasta útboð. Samkvæmt Robert Peck, greinanda hjá SunTrust þá er hér engan vegin um ofmat að ræða þó, en hann segir að verðgildi fyrirtækisins fylgi sama ferli og Facebook fylgdi á sínum tíma en væntar tekjur þess séu jafnvel meiri, samkvæmt frétt CNN.

Ef virði fyrirtækisins færi yfir 20 milljarða Bandaríkjadali yrði það komið í hóp með Uber sem metið er á 62,5 milljarða dali, Xiaomi sem er á 46 milljarða dali og Airbnb sem metið er á 25,5 milljarða. Facebook reyndi að kaupa Snapchat fyrir 3 milljarða árið 2013.

Gríðarlega mikið notað af yngstu aldurshópunum

Snapchat hefur nú þegar sterka stöðu meðal ungra notenda, en samkvæmt rannsókn Variety nota 63% fólks á aldrinum 13 til 24 ára það sem sitt aðalsamskiptaforrit, og er það talið hafa farið fram úr Instagram sem helsta appið notað af táningum.

Fyrirtækið hefur í kringum 150 milljón daglega notendur en nýlega bættust við auknir möguleikar í að nota það til samskipta með bæði hljóð og myndskilaboðum og beinum hringingum.

Stikkorð: hlutafjárútboð app Snapchat