Smáforritið Snapchat , sem gerir snjallsímaeigendum kleift að senda myndir sína á metið, er metið á um 800 milljónir dala, jafnvirði tæpra 100 milljarða króna. Breska dagblaðið Financial Times segir í umfjöllun sinni um forritið að verðmatið hafi legið fyrir eftir síðustu fjármögnun hluthafa fyrirtækisins sem bjó forritið til. Hugmyndin að forritinu varð til hjá nemendum við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum á vordögum 2011 og fór í loftið í september sama ár. Vöxtur forritsins hefur verið mjög hraður. Fram kemur í umfjöllun blaðsins að í febrúar á þessu ári hafi 60 milljón myndir verið sendar með forritinu á degi hverjum. Nú eru þær orðnar 200 milljónir talsins, samkvæmt forstjóranum Evan Spiegel .

Notendur Snapchat geta tekið myndir og myndbönd með símum sínum og sent þær áfram. Viðkomandi getur ákveðið hvort sá sem tekur á móti myndunum getur séð þær í eina eða 10 sekúndur. Að þeim tíma loknum er myndin horfin.

Financial Times rifjar upp að fyrir tæpu ári síðan keypti Facebook Instagram fyrir 715 milljónir dala og ljóst að Snapchat er orðið verðmætara fyrirtæki.