Hugbúnaðarframleiðandinn Snapchat auk nýverið við hlutafé í fyrirtækinu eftir að 23 ónefndir fjárfestar keyptu hlutafé í því fyrir 485,6 milljónir bandaríkjadollara. Sé það framreiknað er hægt að áætla að fyrirtækið sé meira en tíu milljarða bandaríkjadollara virði.

Þótt ekki sé vitað hverjir eru á bak við hlutafjáraukninguna herma heimildir Bloomberg og TechCrunch að tæknifyrirtækið Yahoo og fjárfestingafélagið Kleiner Perkins CAufeld & Byers séu á meðal nýrra fjárfesta í fyrirtækinu.

Þessi tíðindi koma stuttu eftir að leynilegum upplýsingum um framtíðaráætlanir fyrirtækisins var lekið í gegnum tölvupóstsamskipti þess við Sony þar sem m.a. var greint frá áætlunum Snapchat um að hefja sókn á sviði stafrænnar tónlistarþjónustu.

Fyrir rúmu ári síðan hafnaði Snapchat yfirtökutilboði frá Facebook upp á þrjá milljarða bandaríkjadollara en fyrirtækið er nýfarið að hafa tekjur af auglýsingasölu. Virkir notendur Snapchat eru um 200 milljónir um þessar mundir en voru í kringum 100 milljónir fyrr á árinu sem var að líða.

Nánar er fjallað um málið á vef Guardian og Financial Times .