*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 21. október 2020 11:01

SnapChat rýkur upp í verði

Helmingsaukning í sölu hjá fyrirtækinu á þriðja ársfjórðungi jók auð eigendanna upp í sem nemur þúsund milljörðum króna hvor.

Ritstjórn
Stofnendur Snapchat, Bobby Murphy og Evan Spiegel auðguðust mikið í nótt.
epa

Stofnendur Snapchat, þeir Evan Spiegel og Bobby Murphy urðu um 1,3 til 1,4 milljörðum Bandaríkjadala ríkari hvor á nokkrum klukkustundum eftir að félagið birti betri niðurstöður fyrir þriðja ársfjórðung en búist var við.

Þar með er auður þess fyrrnefnda orðinn 6,9 milljarðar dala, og þess síðarnefnda 7,2 milljarðar dala, eða andvirði 958 og 1.000 milljarða íslenskra króna að því er Bloomberg segir frá.

Um tíma hækkaði gengi bréfa félagsins um 25% á eftirmarkaði, upp í 35,57 dali, en gengið var 28,45 dalir við lokun markaða í Bandaríkjunum í gær. Þegar þetta er skrifað er hækkunin 24,08% á eftirmarkaði, en markaðir opna í Bandaríkjunum eftir tvo og hálfan tíma.

Í niðurstöðunum kemur fram að ríflega helmingsaukning hafi orðið á sölu innan appsins á tímum kórónuveirunnar, þannig að tekjurnar jukust um 52% upp í 678,7 milljón dali. Appið er nú með um 249 milljón notendur daglega, og lækkaði rekstrartap félagsins í 200 milljónir dala.

Utan ákveðinna útgjaldaliða var hagnaður af rekstrinum sem samsvarar 1 senti á hlut, en væntingar á markaði gerðu ráð fyrir að tap yrði á þeim mælikvarða upp á 5 sent á hlut. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hafa fjölmörg tæknifyrirtæki hækkað mikið í verði í kórónuveirufaraldrinum sem leitt hefur til þess að fjöldi fólks hefur þurft að halda sig meira heima við.