Hagvöxtur í Bretlandi var 0,2% á 2. ársfjórðungi þessa árs. Lánsfjárskrísan veitti húsnæðismarkaði landsins þung högg og einkaneysla dróst saman.

Hagvöxtur hefur ekki verið minni á einum fjórðungi í Bretlandi í þrjú ár. Fyrir ári síðan var hann 1,6% á 2. fjórðungi og þótti þá lítill, en hann var 2,3% á 1. fjórðungi 2007.

Hagstofa Bretlands (Office for National Statistics) segir samdrátt í byggingariðnaði valda því að hagvöxtur fer minnkandi, en byggingafyrirtæki hafa sagt upp þúsundum starfsmanna á árinu. Í frétt BBC er hins vegar bent á að byggingariðnaður er einungis um 6% af hagkerfinu.

Framleiðsla minnkaði einnig á 2. fjórðungi auk þess sem hægt hefur á þjónustugeiranum.

Þessi snarpi samdráttur hagvaxtar þykir renna stoðum undir þá skoðun að breska hagkerfið sigli nú inn í samdráttarskeið. Viðmælendur BBC benda á að lækka verði stýrivexti fljótlega eigi samdráttur hagkerfisins ekki að verða þeim mun meiri, en Englandsbanki hefur eins og kunnugt er þurft að gera upp á milli þess hvort verðbólga eða samdráttur ógnar breska hagkerfinu meira við stýrivaxtaákvarðanir sínar.