„Þingflokkur fólksins eða miðstjórn hans getur falið einhverjum öðrum en formanni að leiða stjórnarmyndun flokksins,“ segir stjórnmálafræðingurinn Baldur Þórhallsson þegar því er velt er upp hvað gerist ef Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins stígur til hliðar í kjölfar stjórnarslitanna. „Það er hægt að fela einhverjum að vera talsmaður flokksins út á við,“ segir Baldur.

„Eins og gerðist í janúar 2009 þegar Jóhönnu SIgurðardóttur var falið af þingflokki Samfylkingarinnar að mynda stjórn. Menn geta gripið til þannig aðgerða, og það þarf ekki endilega að vera þingmaður, þá getur einhver æðsta valdastofnun flokksins falið honum það tímabundið,“ segir Baldur en bætir við að „það er margoft búið að telja Bjarna Benediktsson af í pólitík. Og mörgum höggum verið komið á hann, en hann hefur staðið allt af sér. Ég held að það sé of snemmt að telja Bjarna af. Það hefur mjög oft verið hart sótt að honum og hann oft átt mjög erfitt uppdráttar, bæði innan flokks sem og í stjórnmálum almennt. En hann hefur staðið það allt af sér.“

Komi til afsagnar Bjarna yrði uppi snúin staða. Í lögum Sjálfstæðisflokksins segir að „ef formaður Sjálfstæðisflokksins fellur frá eða segir af sér tekur kjörinn varaformaður við störfum hans. Flokksráð kýs þá nýjan varaformann og gildir kjör hans til næsta landsfundar.“ Staðan er hins vegar sú að í dag er Sjálfstæðisflokkurinn án varaformanns. Í lögunum segir að „ef varaformaður Sjálfstæðisflokksins fellur frá eða segir af sér kýs flokksráð nýjan varaformann og gildir kjör hans til næsta landsfundar.“ Komi því til þess að Bjarni segi af sér formennsku í Sjálfstæðisflokknum þarf flokksráð þá samkvæmt lögum flokksins að kjósa varaformann, sem tæki við embætti formanns um leið. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn 3. til 5. nóvember.