Valdimar Svavarsson sem nú er stjórnarformaður VÍS eftir að Helga Hlín Hákonardóttir lét af störfum stjórnarformanns hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.  Í yfirlýsingunni segir Valdimar að afsögn stjórnarmannanna tveggja hafi ekki komið til vegna deilna um stefnu, rekstur eða meiriháttar ákvarðanir heldur hafi þær eingöngu snúist um verkaskiptingu innan stjórnar.

Yfirlýsing Valdimars í heild sinni:

„Í byrjun sumars steig Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, formaður stjórnar, tímabundið til hliðar vegna persónulegra mála og tók Helga Hlín Hákonardóttir, varaformaður tímabundið við sem formaður. Eftir umræður stjórnar í dag varð ljóst að Svanhildur hugðist ekki stíga aftur inn sem formaður og því þótti rétt að stjórn skipti með sér verkum að nýju. Skiptar skoðanir voru um þetta á meðal stjórnarmanna en niðurstaða meirihluta stjórnar var kjósa formann og varaformann að nýju. Það eru mikil vonbrigði að Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson skyldu ákveða að segja sig úr stjórn vegna þessa og harma ég það mjög.

Rétt er að ítreka að ekki var um að ræða deilur um stefnu, rekstur eða meiriháttar ákvarðanir heldur eingöngu um verkaskiptingu innan stjórnar.

Í mikilli sátt innan stjórnar hefur verið unnið að miklum og góðum breytingum innan VÍS sem hafa skilað félaginu sem betri fjárfestingarkosti. Áhersla á grunnrekstur félagsins hefur verið aukin og hafa þessar breytingar skilað sér í betri rekstri og sterkara félagi. Þetta endurspeglast í þeim afkomutölum sem kynntar voru fyrir 3ja ársfjórðung í gær. Þeirri vegferð er enganveginn lokið og munum við halda áfram að gera gott félag enn betra“