Á öllum heimasíðum stærstu bankanna má nú sjá kynningar á því sem þeir nefna snertilaus greiðslukort. Stefnt er að því að þessi tækninýjung verði hluti af viðskiptum sem flestra íslendinga í náinni framtíð. Pétur Friðriksson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Borgun, lýsir fyrirkomulaginu á þann veg að greiðslukortin, bæði kredit- og debetkort, virki þráðlaust á móti posanum. „Þú þarft ekki að stinga kortinu inn í raufina heldur berðu kortið upp að posanum og hann nemur þá upplýsingarnar og greiðslan fer í gegn. Þetta er mjög hraðvirkt, enda þarf ekki að slá inn pin-númer. Þú berð bara kortið upp að posanum að og svo er það búið.“

Pétur segir að helsti kostur þessara nýju korta séu hraðari og þægilegri viðskipti. „Það er hins vegar hámarksupphæð á slíkum snertilausum greiðslum, en það er á bilinu 3.600 kr. og upp í 4.000 kr., eftir því hvort um er að ræða VISA eða Mastercard.“

Ýmsar öryggisráðstafanir

Spurður um öryggi kortsins og hvernig tryggt sé að óprúttnir aðila geti ekki stolið kortunum og notfært sér nýjungina segir Pétur að gripið hafi verið til ráðstafana til að koma í veg fyrir slíkt. „Þjófur gæti mögulega nýtt sér kort lítillega ef hann fyndi það á glámbekk en á móti kemur að kortin eru með alls konar innbyggðar öryggisráðstfanir til að að koma í veg fyrir mikið tjón. Þannig þarf alltaf reglulega að setja inn pinnúmer til að staðfesta að réttur aðili sé að nota kortið og sem fyrr segir er bara hægt að framkvæma slíkar snertilausar greiðslur fyrir tiltölulega lágar upphæðir. Tapið yrði því alltaf mjög óverulegt.“

Hægt að greiða með símanum

Pétur bendir jafnframt á að nú séu símaframleiðendur einnig farnir að nota sömu tækni og notuð sé í plastkortunum. „ApplePay til dæmis notar sömu tækni og kortin, eða svokallaða NFC tækni. Þannig geta notendur einfaldlega borið símann upp að posanum og greitt með sama hætti. Þessi tækni er reyndar ekki komin hingað til Íslands ennþá en þetta er komið víða erlendis og er að slíta barnskónum þar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.