Borgun kynnti í dag nýjung í greiðslukortaviðskiptum, svokallaðan snertiposa. Settur hefur verið upp fyrsti snertiposinn á Bæjarins bestu í Tryggvagötu. Í tilkynningu segir að snertiposar séu m.a. forsendan fyrir snjallsímavæðingu í greiðslumiðlun.

Snertiposi getur tekið við greiðslu frá snertikorti eða frá snjallsíma með snertitækni. Í stað þess að stinga kortinu í posann, þarf korthafinn einungis að leggja kortið eða snjallsímann að posanum sem nemur nauðsynlegar upplýsingar á örskotsstundu

Til þess að hægt sé að greiða með snertingu þarf afgreiðslustaður að hafa snertiposa og kaupandi að hafa sérstakt greiðslukort með snertibúnaði – svokallað snertikort. Í tilkynningunni segir að nú þegar snertiposar fara að koma á sölustaði megi búast við því að kortaútgefendur fari að bjóða korthöfum upp á snertikort.