Í skýrslu verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála er lagt til að hér verði byggt upp nýtt húsnæðiskerfi að danskri fyrirmynd.

Danska kerfið byggir á því að lánveitandi lánar gegn veði í húsnæði og sérstök húsnæðislánafélög sjá um að gefa út og selja skuldabréf á markaði til að fjármagna og miðla lánunum.

Nýlega var fjallað um danska kerfið bæði í Financial Times og The Economist. Þar er bent á að dönsk heimili séu með hæstu skuldsetningu sem hlutfall af ráðstöfunartekjum á meðal OECD ríkja.

Spurð hvort heppilegt sé að byggja upp svona kerfi hér svarar Eygló:

"Það sem nefndin leggur til er að það verði sett á stofn húsnæðislánafélög sem byggi á því að það sé jafnvægi á milli fjármögnunar og útlána og að þröng jafnvægisregla verði almenna reglan. Ég held að ef danska kerfið er skoðað sé þetta sú regla sem hefur haldið þessu kerfi á lífi í rúmlega 200 ár. Vandinn við Íbúðalánasjóð er að það var ekki gætt að þessu jafnvægi og sami vandi orsakaði meðal annars gjaldþrot bankanna."

Það er þessi jafnvægisregla sem nefndin er fyrst og fremst að horfa til. Þó við viljum horfa til óverðtryggðs umhverfis til framtíðar þá segir jafnvægisreglan ekkert til um það hvert lánaformið eigi að vera heldur einfaldlega að fjármögnunin þurfi að endurspegla það. Annað sem er mikilvægt að komi fram eru hinir víðtæku möguleikar til uppgreiðslu- og endurfjármögnunar fyrir lántakendur ólíkt núverandi kerfi.

Greiningaraðilarnir fóru mjög vel í gegnum kosti og galla danska kerfisins. Þeir vara við ákveðnum þáttum og í raun nákvæmlega þeim þáttum sem Financial Times og The Economist fjölluðu um. Þeir benda líka á að sníða verði af danska kerfinu ákveðna vankanta og aðlaga íslenskum aðstæðum."

Í Viðskiptablaðinu er viðtal við Eygló Harðardóttur ráðherra. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .