Viðskiptablaðið sagði frá því í gær að Sergio Marchionne myndi ekki snúa aftur til vinnu eftir að hafa undirgengist aðgerð fyrir nokkrum vikum. Til stóð að hann héldi framkvæmdastjórastöðunni eftir að hafa jafnað sig eftir aðgerðina, en á laugardag komu upp vandkvæði tengd aðgerðinni og þá varð ljóst að hann kæmi ekki aftur.

Nokkrir af æðstu stjórnendum fyrirtækisins höfðu verið orðaðir við stöðuna þegar Marchionne færi, og var Altavilla einn þeirra, en það var Mike Manley, framkvæmdastjóri bílaframleiðandans Jeep, sem á endanum fékk starfið. Nú þegar komið er í ljós að Altavilla fær ekki stöðuna, hefur hann sagt upp, samkvæmt frétt Financial Times .

Greinendur höfðu einmitt haft áhyggjur af því að margir af reyndustu stjórnendum samstæðunnar, sem sóttust um stöðuna, myndu hætta eftir að í ljós kæmi að þeir fengju hana ekki.

Richard Palmer, fjármálastjóri samstæðunnar, hafði einnig haft augastað á framkvæmdastjórastöðunni, og tekur nú við hlutverki Altavilla sem yfirmaður viðskiptaþróunar á heimsvísu. Ef Palmer ákveður einnig að hætta er samstæðan komin í nokkuð erfiða stöðu.