Stjórn FKA skorar á aðila í atvinnulífinu, háskólasamfélaginu og hjá hinu opinbera, að gæta alltaf að því að bæði konur og karlar séu þátttakendur í umræðuviðburðum. Þá hvetur stjórn FKA konur til að grípa til sömu aðgerða og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingkona greip til á málþingi þann 8. mars síðastliðinn, þar sem þingkonan yfirgaf málþing Byggðatofnunar um raforku sem haldið var í Hofi á Akureyri á alþjóða baráttudegi kvenna.

Í tilkynningu frá FKA segir að Albertína hafi bent fundarhöldurum á umræddu málþingi á skort á kvenþátttakendum á þinginu, en þar var ein kona af sjö meðal fyrirlesara en engin kona sat í panel. Auk þess hafi fundarstjóri einnig verið karlmaður. Stjórn FKA segir að samsetning sem þessi sé óboðleg eigi viðburðurinn að teljast marktækur umræðuvettvangur eða samtal. Þar megi meðal annars benda á að atvinnuþátttaka kvenna sé litlu minni en karlmanna, auk þess sem konur hafi í mörg ár verið í meirihluta þeirra sem útskrifast úr háskólanámi. FKA hvetur því konur til að sniðganga umræðuviðburði, sem ekki gera ráð fyrir að konur hafi eitthvað til málanna að leggja. Þannig sé ,,Albertínuleiðin” í rauninni góð leið til málþingsmótmæla, þegar ástæða er til.

,,Það sem Albertína gerði var það sem margar okkar höfum oft hugsað í gegnum tíðina og því er full ástæða til að þakka henni sérstaklega fyrir framtakið. Albertína sat ekki aðgerðarlaus og við hvetjum aðrar konur til að gera það ekki heldur. Konur ættu því annað hvort að yfirgefa viðburðina, eða hreinlega að sleppa því að mæta ef konum er ekki ætlað að hafa neitt til málanna að leggja hvort eð er,” er haft eftir Rakel Sveinsdóttur, formanni FKA í tilkynningunni.

Stjórn FKA bendir á að margt hafi breyst til batnaðar í þessum efnum á síðastliðnum árum. Hins vegar sjáist enn reglulega auglýsingar um málþing, fundi og ráðstefnur þar sem konum er greinilega ætlað lítið eða ekkert hlutverk. „Slík vinnubrögð eru ólíðandi og úrelt í dag og standast engin rök.“