Hugbúnaðarfyrirtækin Vettvangur og Stokkur hafa í sameiningu þróað nýtt snjallforrit í samstarfi við Lyfju sem á að einfalda og auka öryggi við kaup á lyfjum. Appið er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, að því er segir í fréttatilkynningu.

,,Með appinu geta viðskiptavinir séð hvaða lyfseðla þeir eiga í gáttinni. Þeir geta pantað lyf og sótt pöntun í næsta apótek Lyfju í gegnum flýtiafgreiðslu sem tryggir hraðari afhendingu. Hægt er að fá lyfin send heim samdægurs í stærstu sveitarfélögum landsins.

Viðskiptavinir geta séð verð á lyfjum og stöðuna í greiðsluþrepakerfi Sjúkratrygginga Íslands auk að fá ráðgjöf í netspjalli," segir Elmar Gunnarsson, einn eigenda og stofnandi Vettvangs, en fyrirtækið hefur sérhæft sig í þróun og rekstri á stafrænum lausnum.

Stokkur starfar við hönnun og þróun á smáforritum. Stokkur og Vettvangur hafa til að mynda unnið saman við þróun lausna fyrir Dominos. Hjá Vettvangi starfa alls fimmtán manns; hönnuðir, hugbúnaðarsérfræðingar og viðskiptaráðgjafar.