*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 21. nóvember 2011 17:43

Snjallsímaforritið Skelfir sýnir alla jarðskjálfta

Frumkvöðlafyrirtækið Reon Tech hannar jarðskjálftaforritið. Vinna einnig að fjölspilunartölvuleik.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Nýlega setti frumkvöðlafyrirtækið Reon Tech snjallsímaforritið Skelfi á markað en það gerir notandanum kleift að fylgjast með jarðhræringum á Íslandi nánast um leið og þær gerast. Forritið er tengt við jarðskjálftavakt Veðurstofunnar og sýnir yfirlit yfir alla jarðskjálfta nokkra daga aftur í tímann og einnig alla eldri jarðskjálfta yfir 3 á Ricther, hvort heldur sem er í lista með ítarupplýsingum eða myndrænt á korti.

Samkvæmt Elvari Erni hjá Reon Tech er markmiðið með forritinu að koma upplýsingum um jarðhræringar á Íslandi til skila á aðgengilegri og skýrari hátt og má því segja að það gegni ákveðnu almannavarnahlutverki. Hægt er að nálgast forritið endurgjaldslaust í Android markaðinum eða í gegnum vefsíðu fyrirtækisins www.reontech.com og mun það einnig koma út fyrir Nokia snjallsíma á næstu dögum.

Skelfir er fyrsta forritið sem Reon Tech gefur út en fyrirtækið vinnur nú að þróun á fjölspilunartölvuleik fyrir snjallsíma sem væntanlegur er á næsta ári. Reon Tech er eitt þeirra 33 fyrirtækja sem staðsett eru í Kvosinni, frumkvöðlasetri. Frumkvöðlasetrið Kvosin er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Íslandsbanka.