Greiðsluþjónusta stórfyrirtækisins Alibaba nemur nú land á Íslandi í kjölfar síaukins fjölda kínverskra ferðamanna sem koma til landsins. Xiaoqiong Hu, yfirmaður viðskiptaþróunar í Evrópu hjá hinu 150 milljarða dala fyrirtæki Alipay, segir félagið nú hafa um 870 milljónir viðskiptavina í Asíu sem versli meira ef þeir geta greitt með snjallsímum.

Alipay, sem rekið er af Ant Financials fjármálaarmi Alibaba, hefur keypt upp snjallsímalausnir í fleiri Asíulöndum, en þó að félagið bjóði ekki upp á greiðsluþjónustu sína á Vesturlöndum sem stendur er það líklega næsta skrefið í vexti félagsins.

Flestir Íslendingar þekkja kínverska fyrirtækið Alibaba, sem Jack Ma stofnaði fyrir um 18 árum, en velta félags á degi einhleypra 11. nóvember síðastliðinn var ríflega 30,8 milljarðar dala sem er nýtt met fyrir fyrirtækið. Margir gera sér þó eflaust ekki grein fyrir hve umfangsmikið fyrirtækið er orðið en það hefur fært út kvíarnar á fjölmörgum ólíkum sviðum kínverska hagkerfisins.

Einn af mörgum ólíkum öngum Alibaba

Fjártæknifyrirtækið Alipay er einn af þeim öngum sem Alibaba hefur getið af sér síðan, en fyrirtækið tók fram úr Paypal sem stærsta snjallsímagreiðslulausn í heimi árið 2013. Fyrirtækið er nú með um 54% markaðshlutdeild af markaði Kína fyrir greiðslulausnir í gegnum snjallsíma, en hann nemur nú að andvirði um 5.500 milljörðum Bandaríkjadala, eða 680,3 billjónum íslenskra króna.

Xiaoqiong Hu, yfirmaður viðskiptaþróunar Alipay í Evrópu, var stödd á ráðstefnu hér á landi á vegum Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka ferðaþjónustunnar á Hótel Natura í síðustu viku til að kynna greiðslulausnina fyrir íslenskum fyrirtækjum. Tilgangurinn er að auðvelda þeim sívaxandi fjölda ferðamanna frá Kína og öðrum Asíulöndum að stunda viðskipti hér á landi, en frá Kína eingöngu komu um 86 þúsund ferðamenn hingað til lands á síðasta ári.

„Þar sem við höfum 600 milljónir notenda í Kína sem nota þjónustu Alipay reglulega þá höfum við risastóran hóp af kínverskum ferðamönnum sem vilja ferðast um Evrópu og þess vegna viljum við dreifa þjónustu okkar sem víðast. Við byrjuðum fyrir þremur árum í Evrópu og nú er markmið okkar að stækka net samstarfsaðila okkar. Við höfum vaxið mjög hratt í Evrópu, þetta er ekki eins og hefðbundinn iðnaður þar sem 20 til 30 prósenta vöxtur er mjög mikið, heldur höfum við verið að tvöfaldast eða þrefaldast í stærð í hverjum mánuði.

Grunnhugmyndin er að tryggja að viðskiptavinir okkar geti fengið sömu þjónustu hvert sem þeir fara í Evrópu eins og þeir geta í Kína, þannig að þeir geti auðveldlega notað Alipay til að finna réttu vöruna fyrir sig, fengið upplýsingar fyrirfram um hana og að lokum notað Alipay, sem þeir þekkja vel, til að greiða fyrir hana,“ segir Hu, sem hefur verið leiðandi í útbreiðslu greiðslulausnar Alipay í Evrópu síðan fyrirtækið hóf landnám í álfunni.

„Kínverskir viðskiptavinir hafa nú notað þjónustu Alipay í fimmtán ár, þekkja hana og það er merki um traust fyrir þá að sjá tákn fyrirtækisins hjá verslunum. Þeir eru þar með ólíklegri til að hafa áhyggjur af því að verið sé að svindla á þeim og finnst vel á móti sér tekið.

Ein af þekktustu áhrifunum af því að fyrirtæki í Evrópu hafa tekið upp greiðslugátt Alipay er að kínverskir ferðamenn hafa keypt mun meira. Sem dæmi þá setti Finnair upp möguleikann til að greiða með Alipay um borð í vélum sínum fyrir um einu og hálfu ári og síðan hefur sölumagnið hjá flugfélaginu aukist um meira en 100%.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .