Fólk keypti fleiri snjallsíma en venjulega farsíma um heim allan á fyrstu þremur mánuðum ársins, samkvæmt nýjustu tölum fyrirtækisins IDC sem fylgist grannt með viðskiptum með snjallsíma og hefur tekið tölurnar saman. Samkvæmt þeim seldur tæplega 419 milljón farsímar á fjórðungnum. Þar af voru 216 milljón símar eða 51,6% allra símanna snjallsímar. Þetta er fysta skiptið sem snjallsímasala er meiri en sala á hefðbundnum farsímum.

Haft er eftir sérfræðingi hjá ICD á vef bandaríska dagblaðsins The Los Angeles Times, að dagar venjulegra farsíma séu senn taldir. Fólk vilji hafa smátölvur nálægt sér.

Samsung átti toppsætið yfir mest seldu símana á þessu þriggja mánaða tímabili en fyrirtækið seldi tæplega 71 milljón snjallsíma og 115 milljónir „venjulegra“ á fjórðungnum. Nokia var í öðru sæti með tæplega 70 milljón seldra síma. Það er 25% samdráttur á milli ára. Apple jók hins vegar við sig og sló sölumet. Fyrirtækið seldi 37 milljónir iPhone-síma á fjórðungnum og hefur salan á símunum aldrei verið betri á fyrsta ársfjórðungi.