Samfélagssmáforritið, eða „appið“, Kinwins hefur lagt upp laupana, en fyrir þarsíðustu helgi var tilkynning send á notendur um að netþjónarnir myndu loka þann 13. september. Í sendingunni segir að appinu hafi verið lokað svo aðstandendur gætu unnið að nýjum hugmyndum og verkefnum.

Kinwins fór á markað í fyrra fyrir iPhone snjallsíma. Forritið var ókeypis hvatningaleikur og félagsmiðill. Um var að ræða leik sem hvatti notendur til að verða „besta útgáfan af sjálfum sér“ með því að eyða tíma í uppbyggilega hluti og stuðla að heilbrigðara líferni. Í gegnum forritið skráði fólk dagleg verkefni og deildi því með vinum og fjölskyldu. Þeir sem notuðu forritið fengu síðan stig fyrir hvert verkefni sem þeir skráðu inn í leikinn og fengu rafræn verðlaun.

Gerð forritsins var styrkt af Tækniþróunarsjóði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .