Uppfærður kostnaður við snjóflóðavarnir sem hafa verið reistar og á eftir að reisa hérlendis næstu þrjú ár nemur á milli 16-20 milljörðum króna, að því er fram kom í erindi Magnúsar Jóhannessonar, ráðuneytisstjóra og formanns Ofanflóðanefndar, á alþjóðlegri ráðstefnu um snjóflóðavarnir sem lauk á föstudag. Ríkisstjórnin ákvað í kjölfar snjóflóðanna á Vestfjörðum að ráðast í viðamiklar úrbætur á snjóflóðavörnum hérlendis og samkvæmt áætlunum frá árinu 1996 var kostnaður við mannvirkjagerðina áætlaður 7-14 milljarðar króna.

Í erindi Magnúsar kom fram að núverandi áætlanir gera ráð fyrir að gerð snjóflóðamannvirkja á hinum ýmsu stöðum á landinu ljúki á árunum 2013-2015, eða um fimm árum síðar en upphaflega var fyrirhugað. Drátturinn skýrist að hluta til vegna þess að rannsókn leiddi í ljós að fleiri þorpum og bæjum stafaði hætta af snjóflóðum en talið var í fyrstu, og hluta til vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að hægja á framkvæmdum við snjóflóðavarnir á árunum 2004-2007 til að stemma stigu við þenslu samfara virkjunarframkvæmdum og öðrum stórum verkþáttum.

„Upphaflegu kostnaðartölurnar eru á verðlagi 1996 og við erum að tala um 50-60% hækkun frá þeim tíma,“ segir Magnús. „Þegar áætlunin var gerð var aðeins gert ráð fyrir að sveitarfélögin sem um ræddi væru níu talsins en nánari athugun leiddi í ljós að þau væru 5-6 til viðbótar. Þannig að þegar allt er tekið saman má segja að grófa áætlunin sem við gerðum á sínum tíma sé ótrúlega nær sanni. Framkvæmdirnar eru í stórum dráttum þrenns konar, þ.e. svo kallaðir leiðigarðar, þvergarðar og stoðvirki, og hin síðast nefndu eru úr stáli og stálverð hefur hækkað ótrúlega mikið. Hluti af kostnaðaraukningunni er því vegna hækkaðs stálverðs. Annað má skýra með vísitöluhækkunum, verðbólgu og samsvarandi þáttum.“