Í máli Seðlabankastjóra á vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndar í morgun kom fram að gjaldeyrisforði Seðlabankans væri nú hæfilega stór. Taldi hann að góðar horfur væru á að komandi gjaldeyrisútboð myndi ekki skerða hann meir en svo að hann taldi vonir standa til að það næðist að byggja hann upp aftur vel fyrir áramót, jafnvel fyrir haustið.

Metsumar í ferðaþjónustu auðveldar gjaldeyriskaup

Samkvæmt grófum áætlunum væri forðinn um 778 milljarða króna  27. maí síðstliðinn og hreinn forði þá um 437 milljarðar. Gjaldeyrisútboðið sem verður 16. júní næstkomandi gæti að hámarki minnkað forðann um 1,67 milljarð evra eða sem nemur 231 milljarð króna á genginu 190 krónur evran. Hreinn forði gæti því farið allt niður í 206 milljarða króna þó ólíklegt væri að allar aflandskrónurnar færu út í útboðinu.

Af þessum sökum megi búast við áframhaldandi krafti í gjaldeyriskaupum Seðlabankans en miðað við horfur á enn einu metsumrinu í ferðaþjónustu og eyðslu hvers ferðamanns verði lítill vandi fyrir Seðlabankann að byggja upp gjaldeyrisforða í sumar, segir í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.

Dregur úr lausafé svo hyllir undir afnám hafta

Í yfirskrift punktanna er vísað til þess að snjóhengjan svokallaða, það er aflandskrónurnar sem lokuðust inní landinu við hrun og tilkomu gjaldeyrishaftanna, sé að bráðna. Því með komandi aflandskrónuútboði og bindingu aflandskróna á sérstökum reikningum mun að óbreyttu draga úr lausafé í bankakerfinu, en ef það gerist sagði Seðlabankastjóri að þá myndi bankinn mögulega opna fyrir veðlánaviðskipti en jafnframt loka á bundin innlán.

Í dag eru innlánsvextirnir í raun virkir stýrivextir en ef þessi breyting verður gerð, þá munu veðlánavextirnir uppá 6,5% verða virkir stýrivextir. Þar sem þeir eru hærri en núverandi stýrivextir uppá 5,75% mun það verða ígildi stýrivaxtahækkunar nema bankinn ákveði breytingar, en næsta vaxtaákvörðun verður 24. ágúst en þá verða jafnframt línur væntanlega teknar að skýrast varðandi afnám hafta sem boðuð hefur verið með haustinu.