Þáttaka í gjaldeyrisútboði Seðlabankans sem fór fram í gær var enn meiri en greiningardeild Arion banka átti von á. Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningardeildarinnar.

Alls bárust tilboð í útgönguleggnum fyrir 57,9 milljarða króna og samkvæmt greiningardeild Arion er það næsthæsta upphæð sem borist hefur frá upphafi útboðanna í júní 2011 og álíka há upphæð og í seinustu fimm útboðum þar á undan samanlagt.

Í inngönguleggnum bárust tilboð fyrir 12,2 ma.kr., sem er engu að síður stærsta upphæð frá því í mars 2012. Ekki var öllum tilboðum í ríkisverðbréfaleiðina tekið en alls hlutu 11,8 milljarðar af kvikum krónum útgöngu í útboðinu í gær. Minnkaði því snjóhengjan svokallaða sem því nemur.

Í Markaðspunktunum segir að hagkerfið virðist vera í góðu jafnvægi um þessar mundir og að sú ógn sem stafar af krónueignum erlendra aðila hefur minnkað til muna undanfarin ár. Því væri óskandi að mati greiningardeildarinnar að fréttir af stórum skrefum í afnámi hafta bærust sem fyrst.