Starfsmenn sorphirðu Reykjavíkur urðu frá að hverfa í morgun í Breiðholti og Vesturbæ vegna ófærðar og biður Sorphirðan fólk um að auðvelda aðgengið með því að moka vel frá sorpílátum og sorpgeymslum segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg

„Starfsmenn sorphirðunnar í Reykjavík mættu til vinnu í morgun kl. 7 til að hirða í Vesturbæ og Breiðholti," segir í tilkynningunni. „Eftir klukkutíma vinnu var ljóst að aðstæður væru þannig að nánast útilokað var að halda hirðu áfram.

Skilja þurfti eftir meiri hluta ílátanna þar sem starfsmenn komust ekki að þeim. Sorphirða mun hefjast aftur kl. 7 í fyrramálið og er að von okkar að búið verði að moka frá ílátum og sorpgeymslum og aðkomuleiðir að þeim svo að hirða geti farið fram.

Einnig þarf að athuga hvort hurðir og lásar á sorpgeymslum séu nokkuð frosnir og hindri þannig starfsfólkið að komast að tunnunum.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar gerir sér fulla grein fyrir því að ástandið er erfitt á meðan færð er slæm og verið er að moka götur. Öll möguleg tæki eru nú úti að vinna við mokstur.

Íbúar eru beðnir um að sýna þolinmæði og aðstoða starfsfólk borgarinnar eftir fremsta megni við að komast í gegnum þennan snjóakafla."

Hér eru helstu ástæður fyrir því að ekki er hægt að losa tunnur:

  • Ekki búið að moka frá tunnum svo ekki er hægt að ná í þær.
  • Frosnar hurðar og ekki hægt að opna þær.
  • Frosnir lásar að sorpgeymslum, –gerðum og –skápum svo ekki er hægt að komast að tunnum.
  • Bílar fyrir sem hefta aðgengi starfsfólks og hirðubíls.