Rapparinn Snoop Dogg hefur höfðað mál gegn bjórframleiðandanum Pabst Brewing, þar sem bjórframleiðandinn skuldar honum peninga vegna sölu á fyrirtækinu og bjórlínu þess á síðasta ári.

Í stefnu Snoop Dogg krefst hann 10% af söluvirði Colt 45 malt bjórlínunnar sem Pabst hlaut í sölunni. Snoop Dogg skrifaði undir þriggja ára samning til að auglýsa bjórlínuna árið 2011. Undir samningnum átti hann að hljóta hluta af söluverði vörumerkisins ef Pabst myndi selja það fyrir janúar árið 2016.

Pabst var seldur bjórfrumkvöðinum Eugene Kashper og fjárfestingafyrirtækinu TSG COnsumer Partners í nóvember, kaupverðið var ekki gefið upp. Samkvæmt lögfræðingi Snoop Dogg var bjórframleiðandinn seldur á 700 milljónir dollara.

Snoop Dogg hlaut 250 þúsund dollara fyrir samninginn auk 20 þúsund dollara í hvert tíunda skipti sem hann nefndi bjórinn á samskiptamiðlum, í sjónvarpi eða á tónleikum.