Hip hop stjarnan Snoop Dogg og kvikmyndaleikarinn Jared Leto hafa fjárfest í vefsíðunni Reddit . Þetta kemur fram á vef Financial Times .

Reddit stendur nú fyrir fjáröflun fyrir starfsemi síðunnar og hefur það að markmiði að safna 50 milljónum bandaríkjadollara. Vefsíðan kallar sig sjálf „forsíðu internetsins“ og er með 133 milljónir notenda á mánaðargrundvelli. Gengur hún út á að notendur síðunnar setja sjálfir inn efni sem þeir telja áhugavert, og kjósa svo aðrir notendur efnið upp eða niður.

Yishan Wong, framkvæmdastjóri Reddit, segir að þeir fjármunir sem safnast verði varið í ráðningu fleira starfsfólks og eflingu á auglýsingastarfsemi. Þá er fyrirætlað að gefa notendum síðunnar 10% fjárhæðarinnar í gegnum nýja rafmynt sem forsvarsmenn Reddit ætla að koma á fót.